Félag laganema við Háskólann á Bifröst var stofnað 19. september 2012. Nafn félagsins er Justitia en það er tilvísun til réttlætisgyðjunnar. Tilgangur félagsins er m.a. að auka tengsl og samheldni meðal nemenda lagadeildar Háskólans á Bifröst ásamt því að standa vörð um hagsmuni þeirra og annarra nemenda við háskólann í samstarfi við nemendafélag skólans.
Þá er markmið félagsins að standa að útgáfu um lögfræðileg álitaefni undir nafninu Lögbrú en með því taka laganemar við Háskólann á Bifröst þátt í almennri umræðu um lögfræðileg álitaefni samfélagsins hverju sinni.
Lagadeild Háskólans á Bifröst er í stöðugri framþróun, sem félag laganema styður heilshugar við en formaður félagsins er áheyrnarfulltrúi í deildarráði. Félagið veitir því bæði stuðning og nauðsynlegt aðhald hvað varðar gæði kennslu og þróun deildarinnar til framtíðar.